Forkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta verður leikin á Kópavogsvelli frá 27.–30. júní. Breiðablik verður þar í eldlínunni, ásamt verðandi landsmeisturum Svartfjallalands, Andorra og San Marínó.
Byrjað er í undanúrslitum og fer liðið sem vinnur úrslitaleikinn áfram í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu, á meðan tapliðin fara í Sambandsdeildina.
Víkingur úr Reykjavík lék á heimavelli í forkeppninni á síðasta ári og fór þá áfram í Meistaradeildina með sigrum á Levadia Tallinn frá Eistlandi og Inter d’Escaldes frá Andorra.
Deildirnar í Svartfjallalandi, Andorra og San Marínó eru vetrardeildir, sem eru í fullum gangi, og því óljóst hvaða andstæðingum Breiðablik mætir í lok júní.
Á meðal þeirra liða sem Breiðablik getur mætt er Buducnost frá Svartfjallalandi, en liðið er í mikilli titilbaráttu í heimalandinu.
Liðin mættust í Sambandsdeildinni á síðustu leiktíð og var leikurinn á Kópavogsvelli mikill hitaleikur. Fengu gestirnir tvö rauð spjöld og voru með ógnandi tilburði við leikmenn Breiðabliks. Breiðablik fór að lokum áfram, með samanlagt 3:2.