Gyða Kristín Gunnarsdóttir hefur verið kölluð inn í landsliðshóp U23-ára landsliðs kvenna í knattspyrnu fyrir tvo vináttulandsleiki gegn Danmörku.
Þetta tilkynnti Knattspyrnusamband Íslands á samfélagsmiðlum sínum í dag en Gyða Kristín, sem er 21 árs gömul, er samningsbundin Stjörnunni í Garðabæ.
Hún kemur inn í hópinn fyrir Sólveigu Jóhannesdóttur Larsen sem er að glíma við meiðsli.
Gyða Kristín á að baki einn A-landsleik, gegn Eistlandi í júní á síðasta ári, en vináttulandsleikirnir gegn Danmörku fara fram dagana 6. og 9. apríl í Helsingör í Danmörku.