Knattspyrnudeild FH ætlar að áfrýja úrskurði Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í máli Mortens Becks Guldsmeds til áfrýjunardómstóls sambandsins.
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ sektaði knattspyrnudeild FH um 150 þúsund krónur og úrskurðað að karlalið félagsins verði í félagaskiptabanni í eitt félagaskiptatímabil ef það ljúki ekki uppgjöri launa við Danann.
Guldsmed hefur krafið FH um 14 milljónir króna sem hann telur sig eiga inni hjá félaginu, auk tveggja milljóna í dráttarvexti. Hann lék með FH árin 2019 til 2021 og var þá í annað sinn á Íslandi eftir að hafa spilað með KR-ingum tímabilið 2016.
FH-ingar hafna því að skulda Guldsmed í yfirlýsingu sem félagið sendi frá sér í kvöld:
„Knattspyrnudeild FH hefur staðið skil á öllum greiðslum til leikmannsins samkvæmt samningi og hafnar því alfarið að hafa ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar gagnvart leikmanninum,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.