Stjarnan er deildabikarmeistari kvenna í knattspyrnu eftir spennandi úrslitaleik Lengjubikarsins gegn Þór/KA á Samsung-vellinum í Garðabæ í dag sem endaði í vítaspyrnukeppni.
Leikurinn endaði 2:2 í venjulegum leiktíma og fór því í vítaspyrnukeppni. Stjarnan skoraði úr öllum sínum vítum og fékk bikar og titil fyrir vikið.
Fyrsta mark leiksins skoraði Sandra María Jessen á 14. mín. eftir stoðsendingu frá Tahnin. Sandra María hitti boltann illa en þrátt fyrir engan kraft í skotinu rúllaði boltinn fram hjá Erin í markinu og inn, 1:0.
Stjarnan jafnaði á 34. mínútu en það var Snædís María Jörundsdóttir sem skoraði markið. Snædís vann boltann úr hápressu og fór svo að markinu og setti hann fram hjá Hörpu í markinu, 1:1.
Þór/KA lá í vörn í seinni hálfleik en eftir skyndisókn skorar Hulda Ósk Jónsdóttir eftir skot fyrir utan teig og boltinn sveif í netið og kom gestunum yfir í 2:1.
Á 76. mínútu fer leikurinn aftur í járn þegar Ólína Ágústa Valdimarsdóttir setti boltann í netið eftir sendingu frá Ölmu Mathiensen. Báðar byrjuðu leikinn á bekknum og var þetta frábær innkoma sem kom Stjörnustelpum í vítaspyrnukeppni en leikurinn endaði 2:2.
Vítaskyttur Þór/KA voru: Jakobína Hjörvarsdóttir, Sandra María Jessen, Hulda Ósk Jónsdóttir, Tahnai Lauren Annis og Hulda Björg Hannesdóttir. Hulda Ósk skaut yfir en hinar skoruðu.
Fyrir Stjörnuna voru það: Jasmín Erla Ingadóttir, Heiða Ragney Viðarsdóttir, Andrea Mist Pálsdóttir, Alma Mathiesen sem tóku víti og síðasta tók hin 18 ára Sædís Rún Heiðarsdóttir.
Stjarnan og Þór/KA mætast aftur í Garðabæ í fyrsta leik í Bestu deild þann 26. apríl.