„Það er fyrst fremst rosalega gaman og alltaf jafn mikill heiður,“ sagði Sandra María Jessen, leikmaður Þórs/KA og íslenska landsliðsins, í samtali við KSÍ TV. Sandra er í landsliðshóp íslenska liðsins sem mætir Nýja-Sjálandi og Sviss í vináttuleikjum í Tyrklandi.
Sandra á 31 landsleik að baki, en hún hefur ekki leikið landsleik frá því í mars árið 2020. „Það er gaman að hitta stelpurnar. Maður hefur ekki verið með þeim í bolta í nokkur ár, svo þetta er mjög gaman,“ sagði Akureyringurinn.
Hópurinn er nokkur breyttur frá því Sandra var síðast í landsliðinu, en henni líst vel á lið sem er með góða blöndu ungra leikmanna og eldri og reynslumeiri.
„Mér líst mjög vel á hópinn. Það er góð blanda í hópnum; mikið af spennandi leikmönnum sem hafa komið inn síðan ég kom síðast og svo mikið af leikmönnum sem maður þekkir úr yngri landsliðunum. Ég held að þetta sé góð blanda af mismunandi leikmönnum sem gera sterka liðsheild.“
Hún er spennt fyrir verkefninu sem fram undan er. „Þetta eru rosalega góðir og mikilvægir leikir til að stilla liðið aðeins betur saman og til þess að fá meiri reynslu. Við munum nýta þetta vel og spila tvo góða leiki,“ sagði Sandra.
Viðtalið við Söndru má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.