Bandarísk leysir Söndru af hólmi

Kelly Rowswell lék síðast með Orlando Pride.
Kelly Rowswell lék síðast með Orlando Pride. Ljósmynd/Orlando Pride

Knattspyrnudeild Vals hefur gengið frá samningi við bandaríska markvörðinn Kelly Rowswell. Mun hún leysa Söndru Sigurðardóttur af hólmi, en Sandra lagði hanskana á hilluna á dögunum.

Rowswell, sem er 25 ára, var síðast á mála hjá Orlando Pride í Bandaríkjunum, þar sem hún var liðsfélagi Gunnhildar Yrsu Sigurðardóttur, en landsliðskonan Gunnhildur skipti yfir til Stjörnunnar á dögunum. Markvörðurinn hefur einnig leikið með Issy í Frakklandi.  

Þá hefur Valur einnig samið við Birtu Guðlaugsdóttur, sem mun veita hinni bandarísku Rowswell samkeppni. Birta kemur til Vals frá Stjörnunni, þar sem hún á 26 leiki að baki í efstu deild.

Hún lék kornung með Víkingi úr Ólafsvík, áður en hún flutti í Garðabæinn, þar sem hún hefur verið frá árinu 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert