U23 ára kvennalandslið Íslands í fótbolta mátti þola tap gegn jafnöldrum sínum frá Danmörku, 1:3, í vináttulandsleik þjóðanna í Helsingør í Danmörku í dag.
Danir komust í 2:0 snemma leiks þökk sé mörkum frá Malou Marcetto og Cecillie Johansen en íslenska liðið vann sig jafnt og þétt inn í leikinn.
Undir lok fyrri hálfleiksins, nánar til tekið á 42. mínútu, minnkaði Ída Marín Hermannsdóttir muninn fyrir Ísland og staðan 1:2, sem voru hálfleikstölur.
Danska liðið var hinsvegar sterkari aðilinn í síðari hálfleik og bætti við þriðja markinu undir lok leiks þökk sé Caroline Pleidrup. 3:1 fyrir Dönum sem voru lokatölur.
Liðin mætast aftur á sama velli á sunnudaginn kemur.