Ég hef aldrei séð hana kasta svona langt

Alexandra Jóhannsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir í leiknum í dag.
Alexandra Jóhannsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir í leiknum í dag. Ljósmynd/KSÍ

„Við spiluðum ekki okkar besta leik,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir landsliðskona í knattspyrnu eftir jafnteflið við Nýja-Sjáland, 1:1, í vináttulandsleik í Tyrklandi í dag.

„Við spiluðum vel á köflum en vorum ekki nógu yfirvegaðar með boltann. Við sköpuðum oft hálffæri en það vantaði úrslitasendinguna fyrir framan markið,“ sagði Dagný við KSÍ  eftir leikinn.

„Við unnum ekki nógu mikið af návígjum eða fyrsta og annan bolta, og það er eitthvað sem við erum þekktar fyrir að vera góðar í. Við þurfum að skoða það og taka með inn í næsta leik ásamt því að byggja ofan á það sem við gerðum vel í dag og laga það sem við  getum gert betur,“ sagði Dagný.

Spurð hvernig vináttulandsleikurinn gegn Sviss í Zürich á þriðjudaginn kemur legðist í hana svaraði Dagný:

„Bara mjög vel. Það er langt síðan við spiluðum við Sviss sem er með ótrúlega gott lið. Mikið af góðum leikmönnum sem spila með sterkum liðum í Evrópu. Það verður gaman og hörkuleikur.“

Dagný skoraði mark Íslands í dag og er þar með orðin næst leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi með 38 mörk, einu meira en Hólmfríður Magnúsdóttir. Spurð um þann áfanga sagði Dagný:

„Jú, ég vissi að ég þyrfti eitt mark og þetta er ótrúlega gaman. Líka að skora beint eftir langt innkast. Ég var búin að segja Sveindísi að henda boltanum beint á mig svo ég gæti sett hann beint á markið. Ég hef aldrei séð hana kasta svona langt og það var ótrúlega gaman að ná einu marki í dag.“

Viðtalið má sjá hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert