Heilt yfir var þetta ekkert sérstakt

Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu, var ekkert allt of ánægður með frammistöðu íslenska liðsins í viðtali við KSÍ eftir jafntefli gegn Nýja-Sjálandi, 1:1, í vináttuleik í Tyrklandi í dag.

„Mér fannst þetta ekki alveg nógu góður leikur hjá okkur. Fyrri hálfleikurinn var ekki góður, við vorum undir í baráttu og návígjum, þær voru grimmari en við og heilt yfir var þetta ekkert sérstakur fyrri hálfleikur.

Við komum ágætlega út í seinni hálfleikinn og spilum ágætlega á 20-25 mínútna kafla í seinni hálfleik, svo datt þetta niður og heilt yfir var þetta ekkert sérstakt. Þetta var svona bardagaleikur, mikil læti og mikil barátta. Þær voru rosalega duglegar, eins og við bjuggumst við, og lögðu allt í þetta. Mér fannst við ekki almennilega klárar í það.“

Þá segist Þorsteinn ekki geta tekið neitt sérlega margt jákvætt úr þessum leik, með sér í leikinn gegn Sviss á þriðjudag.

„Nei ekkert endilega. Jú maður tekur það auðvitað með sér að við þurfum að bæta okkur í ákveðnum hlutum og gera hlutina betur. Við fengum tvö dauðafæri í þessum leik en maður þarf að nýta færin og refsa þegar maður fær þau. Það tókst ekki í dag.“

Telma Ívarsdóttir spilaði leikinn í marki Íslands en Cecilía Rán Rúnarsdóttir var á varamannabekknum.

„Þetta snýst um það að í æfingaleikjum skipti ég á milli markmannanna. Þetta er ekkert flóknara en það að ég skipti leikjum á milli markmanna í æfingaverkefnum, hef alltaf gert það og mun örugglega halda áfram að gera.“

Eins og áður segir er næsti leikur landsliðsins á þriðjudaginn, gegn Sviss.

„Það leggst bara vel í mig held ég. Ég er svo sem ekkert farinn að spá neitt rosalega mikið í honum þannig séð en jú hann leggst örugglega bara vel í mig. Við þurfum bara að bæta ákveðna hluti og þætti í leik okkar til að ná í góð úrslit þar.“

Viðtal KSÍ við Þorstein má sjá í heild sinni hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert