Ísland og Nýja-Sjáland skildu jöfn í Tyrklandi

Sveindís Jane Jónsdóttir með boltann í leiknum í dag. Rebekah …
Sveindís Jane Jónsdóttir með boltann í leiknum í dag. Rebekah Stott sækir að henni. Ljósmynd/KSÍ

Kvennalandslið Íslands og Nýja-Sjálands skildu jöfn, 1:1, í vináttuleik í knattspyrnu í Antalya í Tyrklandi í dag. 

Fyrri hálfleikurinn var ekki sá fjörugasti en bæði lið voru í vandræðum með að halda boltanum innan liðsins framan af. Nýja-Sjálandi gekk þó betur en Íslandi í þeim efnum og höfðu því yfirhöndina út á velli þegar leið á.

Ísland fékk þó besta færið á upphafsmínútunum en á 11. mínútu skaut Ólöf Sigríður Kristinsdóttir yfir mark Nýja-Sjálands úr dauðafæri miðjum í vítateignum eftir mikinn sprett Sveindísar Jane Jónsdóttur upp hægri kantinn og nákvæma sendingu inn að vítapunktinum.

Það voru Íslendingar sem komust yfir á 28. mínútu. Sveindís Jane átti þá langt innkast frá hægri alla leið inn í markteig Nýja-Sjálands þar sem Dagný Brynjarsdóttir reis hæst í teignum og skallaði boltann í fjærhornið. Einfalt en virkilega smekklegt mark, 1:0.

Nýja-Sjáland jafnaði þó einungis sjö mínútum síðar. Liðið fékk þá hornspyrnu frá vinstri sem var spyrnt á fjærstöngina þar sem Hannah Wilkinson mætti og skallaði boltann í netið af stuttu færi. Greinilega einhver misskilningur í vörn Íslands þar sem Wilkinson fékk frían skalla og átti ekki í neinum vandræðum með að setja boltann í netið, 1:1.

Seinni hálfleikurinn fór rólega af stað og eins og fyrri hálfeikurinn bar hann þess merki að ekki væri mikið undir í leiknum. Ísland fékk hættulegri færi en bæði Sveindís Jane og varamaðurinn Hlín Eiríksdóttir reyndu á Victoriu Esson í marki Nýja-Sjálands snemma í hálfleiknum.

Annar varamaður, Svava Rós Guðmundsdóttir, fékk besta færi Íslands í seinni hálfleiknum á lokamínútum leiksins en skot hennar, eftir góðan undirbúning, fór af varnarmanni og rétt framhjá stönginni. 

Lokatölur því 1:1 í leik sem var lítið fyrir augað. Íslenska liðið var töluvert frá sínu besta þrátt fyrir að spila ágætlega á köflum. Það fengu þó margir leikmenn mínútur sem munu án efa nýtast í komandi leikjum. Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Sviss á þriðjudaginn.

Selma Sól Magnúsdóttir í baráttunni við Paige Satchell í leiknum.
Selma Sól Magnúsdóttir í baráttunni við Paige Satchell í leiknum. Ljósmynd/KSÍ
Byrjunarlið Íslands í leiknum.
Byrjunarlið Íslands í leiknum. Ljósmynd/KSÍ
Nýja-Sjáland 1:1 Ísland opna loka
90. mín. Uppbótartími verður þrjár mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka