Breiðablik verður Íslandsmeistari karla í fótbolta annað árið í röð og fær mesta keppni frá Víkingi og Val sem enda í öðru og þriðja sæti Bestu deildar karla.
Þetta er lokaniðurstaðan í hinni árlegu spá fjölmiðla Árvakurs um lokastöðu Bestu deildar karla þar sem 28 manns tóku þátt, starfsfólk Morgunblaðsins, mbl.is og K100 ásamt lausapennum og fréttariturum sem fjalla um leiki deildarinnar.
Breiðablik varð Íslandsmeistari í annað sinn í fyrra, Víkingar höfnuðu í þriðja sæti en Valsmenn enduðu í sjötta sæti eftir mikið vonbrigðatímabil.
Spá Árvakurs í heild sinni er þannig:
1 Breiðablik 308
2 Víkingur 287
3 Valur 270
4 KA 239
5 KR 221
6 Stjarnan 184
7 FH 179
8 Fram 140
9 ÍBV 129
10 Keflavík 90
11 Fylkir 75
12 HK 68
Blikar hefja titilvörnina á nágrannaslag gegn HK á mánudagskvöldið klukkan 20 á Kópavogsvelli. Valsmenn fá Eyjamenn í heimsókn sama kvöld kl. 18.30 og Víkingar mæta Stjörnunni í Garðabæ klukkan 19.15.
Í annarri umferð er síðan á dagskránni sannkallaður stórleikur á Hlíðarenda þegar Valsmenn mæta Breiðabliki sunnudagskvöldið 16. apríl. Víkingar eiga heimaleik gegn Fylki fyrr um daginn.
Umfjöllun um lið Breiðabliks, Víkings og Vals er í Morgunblaðinu í dag