Kemst Valsmaðurinn í 100 marka hópinn í ár?

Patrick Pedersen er næstmarkahæsti leikmaður Vals í efstu deild frá …
Patrick Pedersen er næstmarkahæsti leikmaður Vals í efstu deild frá upphafi, á eftir Inga Birni Albertssyni. mbl.is/Óttar Geirsson

Danski framherjinn Patrick Pedersen úr Val er eini leikmaðurinn í Bestu deild karla í fótbolta í ár sem á möguleika á að komast í hóp þeirra sem hafa skorað 100 mörk í efstu deild hér á landi.

Steven Lennon úr FH varð á síðasta ári sá fimmti í sögunni til að skora 100 mörk í deildinni en þeir sem hafa afrekað það eru eftirtaldir:

131 Tryggvi Guðmundsson, KR, FH, Fylki og ÍBV
126 Ingi Björn Albertsson, Val, FH
113 Atli Viðar Björnsson, FH 
101 Guðmundur Steinsson, Fram og Víkingi R.
100 Steven Lennon, FH og Fram

Patrick Pedersen er níundi markahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með 87 mörk fyrir Val. Fyrir ofan hann í sætum sex til átta eru Hermann Gunnarsson með 95 mörk, Matthías Hallgrímsson með 94 og Óskar Örn Hauksson með 88 mörk.

Óskar er farinn til Grindavíkur í 1. deildinni og bætir því væntanlega ekki við mörkum í efstu deild í ár. 

Gæti misst af fyrstu 10 leikjunum

Patrick þarf að skora 13 mörk til þess að komast í 100 marka hópinn. Viðbúið er að það verði erfitt í ár því hann fór í aðgerð í febrúar og ekki er reiknað með honum inn á völlinn fyrr en seint í maí eða í júní. Hann gæti því hæglega misst af fyrstu tíu umferðum mótsins.

Patrick skoraði 17 mörk fyrir Val árið 2018, 15 mörk árið 2020 og 13 mörk árið 2015.

Fimm aðrir leikmenn sem leika í deildinni í ár hafa skorað 50 mörk eða fleiri en eiga ekki raunhæfa möguleika á að ná 100 mörkunum strax. Þeir eru:

63 Hilmar Árni Halldórsson, Stjörnunni
56 Kristinn Steindórsson, Breiðabliki
53 Matthías Vilhjálmsson, FH (núna með Víkingi)
50 Hallgrímur Mar Steingrímsson, KA
50 Elfar Árni Aðalsteinsson, KA

Valsmenn hefja Bestu deildina á heimavelli sínum á Hlíðarenda annað kvöld, mánudagskvöld, þegar þeir taka á móti ÍBV klukkan 18.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert