„Þetta er félag sem hefur einnig unnið bikara í handbolta, fimleikum og körfubolta og ég held að það sé einhver pressa á þjálfaranum,“ sagði Kristján Jónsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, í upphitunarþætti Dagmála fyrir Bestu deild karla í knattspyrnu þegar rætt var um Stjörnuna.
Garðbæingum er spáð 6. sæti deildarinnar í spá íþróttadeildar Árvakurs en liðið hafnaði í fimmta sætinu á síðustu leiktíð.
„Mér hefur hins vegar fundist með ólíkindum hversu vanmetinn Ágúst Gylfason er því hann náði til að mynda betri árangri en reiknað var með með Fjölni t.d. og hann endaði tvívegis í öðru sæti með Breiðabliki þegar liðið var ekkert sérstaklega vel mannað,“ sagði Kristján meðal annars.