KA og KR skildu jöfn, 1:1, á Akureyri í fyrstu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag.
Fyrri hálfleikurinn var opinn og skemmtilegur framan af en mikil barátta var í báðum liðum. Færeyingurinn Pætur Petersen fékk besta færi hálfleiksins strax á 8. mínútu en hann fékk þá sendingu þvert fyrir markið frá Daníeli Hafsteinssyni, en hitti ekki markið af stuttu færi.
Eftir það áttu bæði lið nokkrar marktilraunir en eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn fór leikurinn að lokast meira. Ægir Jarl Jónasson fékk svo besta færi KR-inga í fyrri hálfleik undir blálok hans en skot hans úr teignum var vel varið af Steinþóri Má Auðunssyni, sem stóð í marki KA í fjarveru Kristijan Jajalo sem meiddist í úrslitaleik Lengjubikarsins á dögunum.
KR-ingar byrjuðu seinni hálfleikinn betur á meðan heimamenn virtust ekki ná upp sama ákafa og í fyrri hálfleiknum. Gestirnir voru mun meira með boltann en náðu þó ekki að skapa sér neitt rosalega mikið.
Á 82. mínútu fengu gestirnir svo vítaspyrnu. Kennie Chopart var þá með boltann hægra megin að undirbúa sig fyrir að gefa boltann fyrir markið þegar Þorri Mar Þórisson reif niður varamanninn Kristján Flóka Finnbogason sem tók hlaup inn á teiginn. Vítaspyrna réttilega dæmd og Kristján Flóki skoraði sjálfur úr vítinu, af miklu öryggi, 0:1.
Í uppbótartíma bætti Þorri þó upp fyrir mistök sín en hann fékk boltann þá hægra megin á vellinum, fór með hann inn í teiginn, setti hann á vinstri fótinn og kláraði glæsilega niðri í fjærhornið, 1:1. Varnarleikur KR-inga ekki frábær en Þorri fékk að vaða nokkuð óáreittur inn á teiginn.
Bæði lið eru því með eitt stig eftir þennan fyrsta leik en líklegt er að KR-ingar séu sáttari með stigið, enda að spila á erfiðum útivelli.