Valur fer vel af stað Í Bestu deild karla í fótbolta á leiktíðinni, en liðið lagði ÍBV, 2:1, á heimavelli í 1. umferðinni í kvöld. ÍBV skoraði eina mark fyrri hálfleiks, en Valsmenn svöruðu með tveimur í seinni.
Eyjamenn voru sterkari í fyrri hálfleik og voru með verðskuldað 1:0-forskot í leikhléi. ÍBV skapaði sér mun fleiri færi í hálfleiknum og var það algjörlega verðskuldað þegar Felix Örn Friðriksson skoraði glæsilegt mark á 41. mínútu.
Felix kláraði þá með glæsilegu skoti upp í vinkilinn utan teigs, eftir gott spil við Alex Frey Hilmarsson. Fram að markinu hafði ÍBV fengið nokkur mjög góð færi, en Frederik Schram staðið vaktina í marki Vals.
Halldór Jón Sigurður Þórðarson fékk besta færið er hann slapp einn í gegn á 36. mínútu en Frederik gerði mjög vel í að sjá við honum. Hinum megin voru færin af mjög skornum skammti, en Adam Ægir Pálsson fékk það besta er hann skaut rétt yfir, nokkrum sekúndum áður en ÍBV skoraði.
Valsmenn mættu mun sterkari til leiks í seinni hálfleik og ógnuðu marki ÍBV nokkuð framan af. Það skilaði sér í jöfnunarmarki á 56. mínútu, þegar Adam Ægir Pálsson skaut í stöng og inn af rúmlega 20 metra færi.
Bæði lið komust nálægt því að skora á næstu mínútum. Frederik varði mjög vel frá Alex Frey Hilmarssyni úr markteignum á 62. mínútu og tveimur mínútum síðar skallaði varamaðurinn Guðmundur Andri Tryggvason rétt yfir úr góðu færi.
Varamaðurinn Andri Rúnar Bjarnason fór svo illa með tvö mjög góð færi fyrir heimamenn á fjögurra mínútna kafla. Fyrst skallaði hann yfir úr teignum, einn og óvaldaður, á 70. mínútu og skóflaði síðan boltanum yfir af stuttu færi á 74. mínútu.
Aðeins þremur mínútum síðar komust Valsmenn þó yfir með fallegu marki. Aron Jóhannsson átti fallega sendingu á varamanninn Tryggva Hrafn Haraldsson, sem sendi fyrir á Guðmund Andra, sem þurfti bara að pota boltanum inn fyrir marklínuna.
Eyjamenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin, en náðu ekki að skapa sér almennilegt færi í lokin. Valsmenn fögnuðu því sætum endurkomusigri.