Hallgrímur Jónasson var sáttur með að ná í stig eftir leik gegn KR í dag úr því sem komið var. Liðin gerðu jafntefli, 1:1, á Akureyri í fyrstu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag.
„Fyrstu viðbrögð eru smá blendin. Ég er gríðarlega ánægður með fyrri hálfleikinn, við spilum vel og fáum nokkur færi, þar af eitt frábært færi, sem við hefðum átt að nýta. Við náum því ekki og förum í hálfleikinn með 0:0 en eigum erfitt uppdráttar í byrjun seinni. Þeir eru meira með boltann og stýra leiknum fyrsta korterið en svo fannst mér leikurinn jafnast aftur og við komast aftur inn í leikinn.
Það var því mikið högg að fá á sig þetta mark sem kom upp úr engu, boltinn var ekki einu sinni í teignum og það er dæmt víti. Ég var búinn að heyra að þetta hafi verið 100% réttur dómur og ég er bara ánægður með að við gefumst ekki upp, heldur höldum áfram að þrýsta á þá. Mér finnst við vera líklegri, skorum og erum ennþá líklegri eftir það. Mér fannst við frekar vera að reyna að sækja sigurinn heldur en þeir. Ég er bara ánægður með viðbrögðin hjá strákunum en hefði verið til í að vera yfir í hálfleik.“
Kristján Flóki Finnbogason kom KR yfir úr vítaspyrnu á 83. mínútu en eftir það var KA mun betri aðilinn á vellinum og sótti af miklum krafti.
„Við verðum ekkert litlir í okkur þó við lendum undir. Við erum komnir með þroskað og flott lið og ég var rosalega ánægður með þessi viðbrögð. Þetta er mikið högg, að fá á sig víti og mark upp úr engu, og það er erfitt að kyngja þessu. Þess vegna er ég mjög ánægður með að við sóttum jafntefli í stað þess að vorkenna sjálfum okkur.“
Ný nöfn komu við sögu hjá KA í dag. Pætur Petersen byrjaði leikinn og þeir Harley Willard, Birgir Baldvinsson og Ingimar Torbjörnsson Stöle komu inná sem varamenn. Þá var Kristoffer Forgaard Paulsen ónotaður varamaður.
„Ég er gríðarlega ánægður með þá, þeir hafa komið vel inn í hópinn okkar. Þeir tóku allir þátt í leiknum í dag nema Kristoffer, sem er miðvörður sem kom ekki inná. Ég er bara mjög ánægður með þá og ánægður með undirbúningstímabilið, það er búið að ganga vel, fáir meiddir og góð holning á hópnum. Við tökum það með okkur og þó við hefðum viljað sigur í dag vorum við að gera jafntefli við flott KR-lið. Við erum allavega komnir á blað og eigum svo ÍBV heima í næstu umferð sem við ætlum að vinna.“
Þá segir Hallgrímur leikmannahóp KA vera fullmótaðan.
„Hann er fullmótaður. Við erum búnir að fá þá leikmenn sem við vildum fá inn og erum búnir að lána nokkra unga sem við töldum hafa gott af því að fá margar mínútur í fullorðinsfótbolta hjá öðrum liðum. Ég er bara ánægður með hópinn eins og hann er í dag.“
Rodri, miðjumaður KA, fór af velli í seinni hálfleik en hann virtist meiðast. Þá fékk Bjarni Aðalsteinsson aðhlynningu á vellinum eftir að flautað hafði verið af.
„Rodri fær eitthvað aðeins í nárann en var nú pirraður við mig að hafa tekið hann útaf. Málið er bara að við eigum svo marga leiki á stuttum tíma að ég vil ekki taka áhættur. Við erum vel settir með miðjumenn og þess vegna taldi ég best fyrir liðið að taka hann útaf. Ég tel þetta ekki vera alvarlegt.
Varðandi Bjarna held ég að þetta hafi verið bara einhver krampi sem hann fékk. Hann er bara ótrúlega duglegur, orkumikill og flottur svo ég held að hann hafi bara verið búinn á því.“