Íslandsmótið hefst á Akureyri og í Árbænum

KA og KR mætast í fyrstu umferðinni á Akureyri í …
KA og KR mætast í fyrstu umferðinni á Akureyri í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Íslandsmótið í knattspyrnu hefst í 112. skipti í dag þegar leikin er heil umferð í Bestu deild karla á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.

Mótið hefst á sama tíma á Akureyri og í Árbænum. KA fær KR í heimsókn og nýliðar Fylkis taka á móti Keflavík en flautað verður til beggja leikjanna klukkan 14.

Í báðum leikjum mætast lið sem spáð er svipuðu gengi en í spá Árvakurs fyrir mótið varð KA í fjórða sæti og KR í því fimmta en Keflavík var í tíunda sæti og Fylkir í því ellefta og næstneðsta.

Þriðji leikurinn hefst á Hlíðarenda klukkan 18.30 en þar taka Valsmenn á móti Eyjamönnum. Þessum liðum var spáð þriðja og níunda sæti í umræddri spá.

Klukkan 19.15 hefjast tveir leikir en í Úlfarsárdal mætast Fram og FH og í Garðabænum tekur Stjarnan á móti Víkingi. Fram og FH var spáð áttunda og sjöunda sæti deildarinnar en Stjörnunni sjötta sæti og Víkingi því þriðja.

Umferðinni lýkur síðan á Kópavogsvelli þar sem Íslandsmeistarar Breiðabliks hefja titilvörnina með nágrannaslag gegn nýliðum HK. Blikum var spáð sigri í deildinni annað árið í röð en HK var spáð tólfta og neðsta sætinu. Kópavogsslagurinn hefst klukkan 20.

Allir leikirnir verða í beinum textalýsingum hér á mbl.is og M-gjöfin, einkunnagjöf Morgunblaðsins til leikmanna, birtist í blaðinu sem kemur út í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert