Fram og FH skildu jöfn eftir hörkuleik í fyrstu umferð í Bestu deild karla á Framvellinum í Úlfarsárdal í kvöld. Leikurinn endaði 2:2 og bæði lið taka eitt stig úr fyrsta leik tímabilsins.
Hart var barist um fyrstu mögulegu stigin á tímabilinu en bæði liðin enduðu í neðri hluta deildarinnar í fyrra.
Fyrsta mark leiksins kom úr vítaspyrnu sem Vuk Oskar Dimitrijevic fiskaði fyrir gestina í liði FH. Kjartan Henry steig á punktinn og vippaði boltanum í mitt markið. Þetta var fyrsta mark hans fyrir Fimleikafélagið, 1:0.
Annað mark leiksins var sömuleiðis víti en þá var brotið á Jannik Pohl. Guðmundur Magnússon kom með sendingu í hlaupaleið Jannik inn í teig, þar mætti Sindri Kristinn Ólafsson markvörður honum og var of seinn í tæklingu. Guðmundur fór á punktinn og hamraði hann í netið fram hjá Sindra sem valdi rétt horn, 1:1. Stuttu seinna fór Jannik meiddur af velli og inn kom Hlynur Atli Magnússon, fyrirliði Fram.
Í seinni hálfleik komst Fram yfir með marki frá fyrirliða sínum. Fred Saraiva kom með sendingu fyrir og Ólafur Guðmundsson reyndi að koma boltanum frá. Hann fór þó beint fyrir Hlyn Atla sem hamraði honum í netið, 2:1.
Á 69. mínútu átti Eetu Mömmö frábæra sendingu upp völlinn sem fór fyrir Vuk Oskar Dimitrijevic. Hann tók af skarið og fór fram hjá Óskari Jónssyni, síðan lék hann á Delphin og hamraði boltanum svo í netið. Lokastaðan var 2:2.