Davíð Örn Atlason, leikmaður Víkings, var ansi ánægður í samtali við blaðamann mbl.is eftir sigurleik liðsins gegn Stjörnunni í Garðabæ í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.
„Það var bara geggjað að ná að landa þessu í kvöld. Það var frábært að vera með 1:0 forystu í hálfleik og svo var ansi sætt að sjá boltann inni hjá Oliver og staðan orðin 2:0.
Svo héldum við þetta bara út. Þetta var kannski ekki fallegt á lokakaflanum en við gerðum bara það sem þurfti. Varnarleikurinn okkar í heild sinni var mjög góður. Það er alltaf gott sem varnarmaður að halda hreinu.
Þá er maður að gera eitthvað rétt. Við fengum bara eitt stig gegn Stjörnunni í þremur leikjum í deildinni í fyrra þannig að við erum strax búnir að vinna tvö stig aukalega þar frá því í fyrra.
Það er líka bara góðs viti að halda hreinu og sigla svona leik heim,“ sagði Davíð Örn að lokum við blaðamann mbl.is í Garðabænum í kvöld.