„Við ætlum okkur að ná efri hlutanum og það væri bónus að ná í Evrópukeppni,“ sagði Vuk Oskar Dimitrijevic eftir leik FH gegn Fram í kvöld í Bestu deild karla í fótbolta í Úlfarsárdal en hann endaði með jafntefli, 2:2.
Vuk fiskaði víti og skoraði mark fyrir FH í hörkuleik í Úlfarsárdalnum.
„Mér fannst við heilt yfir betri. Við vorum samt undir í lokin og náðum að jafna svo þetta var nokkuð sanngjörn niðurstaða.“
Vuk skoraði seinna mark leiksins þegar FH-ingar voru 2:1 undir. „Ég fékk boltann inn fyrir frá Eetu, fer svo til hægri, sóla held ég þrjá og fer svo í skot og skora,“ sagði Vuk um markið sitt.
FH endaði í 10. sæti í fyrra með 25 stig, jafnt ÍA sem féllu úr deildinni. FH-ingar hafa síðan m.a. sótt Kjartan Henry úr KR og fengið aftur Heimi Guðjónsson sem hefur gert frábæra hluti fyrir félagið.
„Mér finnst hópurinn sterkari heldur en í fyrra og við erum með meiri breidd í allar stöður. Erum heilt yfir betur settir heldur en við vorum fyrir síðasta tímabil. Við ætlum okkur að ná efri hlutanum og það væri bónus að ná í Evrópukeppni.“
Vuk fór meiddur út af í lok leiks en sagði þetta ekkert alvarlegt og verður því tilbúinn þegar FH mætir Stjörnunni 15. apríl.