Víkingur vann Stjörnuna 2:0 í fyrstu umferð Bestu deildar karla í Garðabænum í kvöld. Það var Nikolaj Hansen sem skoraði fyrra mark Víkings á 31. mínútu eftir góða sendingu frá Davíði Erni Atlasyni en Oliver Ekroth bætti öðru markinu við á 70. mínútu eftir hornspyrnu frá Pablo Punyed.
Þetta byrjaði frekar rólega í Garðabænum í kvöld en gestirnir úr Fossvoginum voru þó meira með boltann til að byrja með en Stjörnumenn vörðust vel. Birnir Snær Ingason fékk fyrsta alvöru færið í leiknum en skot hans var virkilega vel varið af Árna Snæ Ólafssyni í marki Stjörnunnar og í kjölfarið varði hann aftur meistaralega frá Matthíasi Vilhjálmssyni.
Á 21. mínútu leiksins var Matthías svo ansi nálægt því að koma gestunum yfir en skot hans fór af varnarmanni og í stöngina. Stjarnan fékk þó sín tækifæri en þó sérstaklega úr föstum leikatriðum en í fyrri hálfleik fékk Stjarnan sjö hornspyrnur.
Á 31. mínútu dró svo til tíðinda en þá átti Davíð Örn Atlason góða sendingu inn í teig Stjörnumanna þar sem Nikolaj Hansen tók á móti boltanum, lagði hann fyrir sig, og setti í netið. í kjölfarið fengu Víkingar nokkur góð tækifæri til að komast í tveggja marka forystu en Árni Snær var vel með á nótunum og kom í veg fyrir það. Sérstaklega varði hann vel þegar að Erlingur Agnarsson komst einn í gegn á 41. mínútu.
Það var aftur á móti Stjarnan sem átti lokasóknina í fyrri hálfleik og á einhvern óskiljanlegan hátt náðu þeir Eggert Aron og Hilmar Árni ekki að setja boltann í netið en varnarmenn Víkings náðu að verja á marklínu.
Í seinni hálfleik mættu gestirnir ansi sprækir til leiks og meðal annars átti Erlingur Agnarsson skot yfir mark Stjörnunnar eftir góða sendingu frá Loga Tómassyni strax á 47. mínútu leiksins. Á 60. mínútu leiksins átti Ísak Andri Sigurgeirsson góðan sprett upp hægri kantinn en á síðustu stundu náði Halldór Smári að koma sér fyrir skotið og setti boltann í horn. Það varð ekkert úr horninu frekar en öðrum hornspyrnum sem heimamenn fengu í seinni hálfleik.
Leikmenn Víkings voru áfram mun hættulegri í seinni hálfleik og náðu að auka forystu sína á 70. mínútu en þá átti Pablo Punyed hornspyrnu en hann setti boltann á nærstöngina þar sem Oliver Ekroth var og skallaði boltann í netið.
Eftir þetta annað mark Víkinga var aldrei spurning hvernig þetta myndi fara. Sóknarleikur heimamanna var ekki mjög sannfærandi og áttu varnarmenn Víkings ekki í miklum vandræðum að verjast Stjörnumönnum. Gestirnir voru líklegri að skora þriðja markið en Stjarnan að minnka muninn.
Næsta verkefni Stjörnunnar í Bestu deild karla er leikur gegn FH í Kaplakrika á laugardaginn en Víkingur á heimaleik gegn Fylki á sunnudaginn.