Svakaleg sveifla þegar nýliðarnir skelltu meisturunum

Viktor Karl Einarsson reynir að komast fram hjá HK-ingnum Arnþóri …
Viktor Karl Einarsson reynir að komast fram hjá HK-ingnum Arnþóri Ara Atlasyni á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Nýliðar HK unnu ótrúlegan sigur á Íslandsmeisturum Breiðabliks, 4:3, í fyrstu umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Kópavogsvellinum í kvöld, og liðið skoraði tvö síðustu mörkin á lokamínútum leiksins.

HK, nýliðar í efstu deild, létu spá um fall ekkert trufla sig þegar þeir mættu háttskrifuðum Íslandsmeisturum Breiðabliks á heimavelli þeirra og höfðu skorað tvö mörk áður en átta mínútur voru liðnar.   

Lengi vel hélt það en á 74. mínútu kom fyrsta mark Breiðabliks, tveimur mínútum síðar annað og þriðja eftir aðrar tvær mínútum og staðan var þar með orðin, 3:2.  HK-menn héldu samt áfram og jöfnuðu með sjálfsmarki Blika á 87. mínútu og ef þessi dramatík var ekki nógu mikil þá skoraði Atli Þór Jónasson sigurmark HK þegar langt var liðið á uppbótartíma og liðið lagði þar með meistarana 3:4.

Blikar voru varla búnir að koma sér fyrir þegar Marciano Aziz skoraði fyrir gestina úr HK með þrumuskoti úr þröngu færi eftir frekar rólega sókn HK upp hægri kantinn á 2. mínútu.  Blikar tóku svo við sér en þá skoraði Örvar Eggertsson með þrumuskoti aðeins inni í vítateig vinstra megin og staðan var þá orðin 0:2 áður en 8. mínútur voru liðnar.  Það er bara svona. 

Blikar gáfust samt ekki upp, sóknir þeirra voru þyngri og á 9. mínútu skallaði Gísli Eyjólfsson í stöng HK af stuttu færi eftir snarpa sókn.  HK-menn vörðust vel, komu vel aftur og í veg fyrir að snöggir sóknarmenn Breiðabliks kæmust á bak við vörnina.   

Færin voru samt ekki mörg en á 23. mínútu skallaði Færeyingurinn Patrik Johannesen rétt fram hjá marki HK úr góðu færi.    

Síðan leið og beið, þó Blikar væru með boltann var ekkert um hættuleg færi en hinum megin varði Anton Ari í markinu þrumuskot Marciano, úr HK, úr aukaspyrnu á vítateigslínu.   Damir Muminovic, varnarmaður Breiðabliks, var mjög klókur í sambandi við þessa aukaspyrnu því hann rétt náði að brjóta á Örvari, markaskorara HK, sem var að skjótast í gegnum vörn Breiðabliks, fékk reyndar gult fyrir brotið en samt var þetta vel sloppið.

Áfram héldu Blikar að sækja eftir hlé en færin létu á sér standa og gestirnir komu sér líka í færi þegar þeir reyndu helst að þruma boltanum fram.   Blikar reyndu að fá vörn HK framar til að komast á bak við vörn HK en það tókst ekki alveg og þeir reyndu líka að skipta ört á milli kanta til að slíta vörn HK í sundur en það gekk ekki heldur. 

Svo brustu varnirnar og lágu í raun niðri í rúmar fimm mínútur.   Gísli Eyjólfsson skallaði boltann í mark HK úr miðjum vítateig HK eftir sendingu Viktors Karls Einarssonar á 74. mínútu, 2:1.

Stefán Ingi Sigurðarson bætti við öðru af harðfylgi, 2:2, og síðan var brotið á Stefáni Inga, svo dæmt var víti sem Höskuldur Gunnlaugsson skoraði úr af miklu öryggi og staðan var þá  skyndilega orðin 3:2 fyrir Breiðablik.

HK-menn sýndu síðan ótrúlega seiglu og eftir þunga sókn með hornspyrnu tókst þeim að jafna með sjálfsmarki Blika, 3:3, á 89. mínútu. 

HK-menn létu það ekki duga, langaði greinilega í öll stigin og þegar tvær af fjórum mínútum voru liðnar skoraði Atli Þór Jónasson sigurmark HK með þrumuskoti, sem slapp undir Anton markvörð Breiðabliks.

HK var verðskuldað yfir framan af, skynsamlega leikið hvort sem var með þéttri vörn og snöggum sóknum – lásu leik Blika vel sem sjálfir fengu ekki frið til að gera sitt eða náðu ekki að nýta sína hæfileika og fengu bágt fyrir.   Þar til til stíflan brast svo um munaði en HK-menn bitu í skjaldarrendur, sýndu frábæran vilja og einbeitingu, sem dugði til sigurs.

Breiðablik 3:4 HK opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert