Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var svekktur að ná ekki í þrjú stig gegn KA en liðin skildu jöfn, 1:1, á Akureyri í Bestu deild karla í knattspyrnu í dag.
„Smá svekkelsi að ná ekki að halda þetta út og taka öll stigin þrjú. Ég held samt sem áður að úrslitin séu nokkuð sanngjörn, KA-menn voru betri í fyrri hálfleik en svo lékum við örlítið betur í síðari hálfleik. Það var lítið um færi hjá báðum liðum en það voru möguleikar í stöðunni fyrir bæði lið að búa til eitthvað meira.
KA-liðið er erfitt að eiga við. Þeir eru ofboðslega skipulagðir varnarlega og erfitt er að finna glufur á þeim. Við vorum þolinmóðir á boltanum í síðari hálfleik og náum þar af leiðandi aðeins betri tökum á leiknum en í þeim fyrri þar sem við vorum að reyna úrslitasendingar of snemma. Boltinn gekk töluvert hraðar á grasinu hérna en við erum vanir í Vesturbænum. Maður sá það á okkar mönnum, það var mikið um feilsendingar.
Ég tek aldrei jafntefli fyrir fram, ég vil alltaf vinna. Miðað við hvernig leikurinn þróaðist og hvernig hann var held ég að þetta séu sanngjörn úrslit. Það er eðli fótboltamanna að þegar menn eru komnir í forystu leggjast þeir aftar og við lögðum meiri áherslu á að verja markið okkar. Í markinu sem þeir skora er þetta bara einn á móti einum og engin hjálparvörn, menn voru hættir að lyfta upp í pressuna og fara frekar í það að falla aftur. Við vörðumst því bara mjög illa.“
Eins og Rúnar segir var KA betri aðilinn í fyrri hálfleik en í þeim síðari voru það gestirnir úr Vesturbænum sem voru betri.
„Við þurftum örlítið betri hreyfingu á fremstu miðjumennina okkar og kannski meiri stöðuskiptingar. Að mestu leyti snerist þetta samt um að passa boltann aðeins betur og ekki alltaf að leita að úrslitasendingu eftir að hafa sent hann þrisvar til fjórum sinnum á milli manna. Við þurftum að reyna að færa KA-liðið til og skapa pláss, og það heppnaðist bara mjög vel. Við kannski sköpuðum engan urmul færa en við áttum ágætis upphlaup og fengum fína möguleika, þetta gekk allavega miklu betur í seinni hálfleik.“
Það eru ný nöfn í liði KR en þeir Simen Lillevik Kjellevold, Jakob Franz Pálsson, Olav Öby, Luke Rae og Jóhannes Kristinn Bjarnason komu allir við sögu í leiknum í dag.
„Já það er bara frábært hvernig þeir hafa komið inn í þetta. Við erum með Jakob, Olav og Simen alla í byrjunarliðinu í dag, sem eru að koma í fyrsta skipti í íslenska boltann. Jakob hefur aldrei spilað í efstu deild á Íslandi, svo fyrir hann var frábært að fá tækifæri hér og við vorum mjög ánægðir með hann.
Við erum ánægðir með nýju leikmennina og bara alla leikmennina sem tóku þátt. Ég ætla ekki að skammast yfir einum né neinum, ég er ánægður með þessa stráka, þeir komu vel inn í þetta og ég er sáttur með að við gátum komið norður á mjög erfiðan útivöll á móti góðu liði og náð í stig, það er dýrmætt. Það er gott fyrir nýju leikmennina að upplifa íslenskan fótbolta við íslenskar aðstæður og ná í stig.“
Atli Sigurjónsson fór meiddur af velli í síðari hálfleik en Rúnar telur það ekki vera neitt alvarlegt.
„Þetta var bara þreyta og álag. Hann veiktist mjög illa, var frá í tvær vikur og er að komast í sitt besta form. Hann á aðeins í land enn þá og það var viðbúið að hann gæti ekki spilað allan leikinn. Hann var bara skynsamur og bað um skiptingu.“