Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði Stjörnunnar, var svekktur í leikslok í samtali við blaðamann mbl.is eftir 0:2-tap liðsins gegn liði Víkings úr Reykjavík í Bestu deild karla í knattspyrnu í Garðabænum í kvöld.
„Þetta er svekkjandi niðurstaða í fyrsta leik. Það eru svona mín fyrstu viðbrögð. Svekkjandi að ná ekki að spila sterkari leik hér í kvöld. Víkingarnir fengu að vera aðeins of mikið með boltann í kvöld, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við náum ekki að klukka þá almennilega í pressunni. Þetta var bara erfitt.“
Þið fenguð mikið af hornspyrnum og aukaspyrnum í leiknum en náðuð ekki að nýta ykkur þau föstu leikatriði. Hvað var að klikka?
„Við náðum ekki að vinna nægilega vel úr því. Við náðum ekki að skapa neitt úr þessum föstu leikatriðum. Það vantaði aðeins upp á hjá okkur í kvöld.“
Næsti leikur ykkar er gegn FH í Kaplakrika. Hvernig líst þér á það að fara þangað aftur?
„Mér líst bara vel á það. Ég þekki vel til þar enda minn gamli heimavöllur og vonandi get ég gert eitthvað af viti þar. Það er allavega stefnan að gera betur en í dag,“ sagði Guðmundur Kristjánsson að lokum við blaðamann mbl.is í Garðabænum í kvöld.