Vorum komnir í skotgrafirnar

Arnar Freyr Ólafsson markvörður HK og Leifur Andri Leifsson ásamt …
Arnar Freyr Ólafsson markvörður HK og Leifur Andri Leifsson ásamt Patrik Johannesen framherja Breiðabliks. mbl.is/Óttar Geirsson

HK-menn voru skynsamir og héldu skipulaginu lengi vel, fengu síðan á sig þrjú mörk á nokkrum mínútum en tókst samt að snúa leiknum við og herja rækilega á meistarana.  Það var samt ekki alveg óvart segir fyrirliðinn.  „Við vorum búnir að fara rækilega yfir leik Breiðabliks og fórum án pressu í þennan leik, vissum að pressan var á Blikum svo við ætluðum bara að njóta þess að vera á vellinum með kassann úti og viðhorfið í lagi.  Ætluðum að pressa en vera líka skynsamir í leiðinni ef við sæjum að þetta væri ekki að ganga hjá okkur og þeir klikkuðu á tveimur færum í fyrri hálfleik en við vorum með ákveðið skipulag, höfðum skoðað lið Blika vel og pressuðum.  Ef það svo klikkaði vorum við með plan B, sem var að stíga til baka og vorum svo þar til Blikar voru komnir í forystu en þá settum við upp að fara pressa á þá og sem betur fer komumst við til baka.“

Fyrirliðinn var afar sæll með sigurinn en hélt samt jarðsambandi.  „Okkur finnst frábært að fá þrjú stig hérna núna en mótið er langt og við megum alls ekki missa okkur, það er strax leikur á sunnudaginn og leikið þétt svo við getum ekki misst okkur í gleðinni en ég held að þessi leikur hafi verið frábær auglýsing fyrir deildina,“ sagði Leifur Andri.

Sem betur fer fór boltinn inn í markið

Atli Þór Jónasson kom inná 77. mínútu hjá HK og skoraði svo sigurmarkið gegn Blikum með þrumuskoti utan teigs þegar langt var liðið á uppbótartímann.  „Ég datt aðeins út og gerði bara eitthvað en sem betur fer fór boltinn inn í markið, sá bara að við voru fjórir á móti tveimur held ég og hugsaði bara um að skjóta,“ sagði Atli Þór eftir sigurleikinn þegar HK vann Breiðablik 4:3 í svakalega dramatískum leik.

Það var ekki að sjá að HK-menn væru nokkuð að láta trufla sig að spila við Íslandsmeistarana, sem er spáð sigri í deildinni af þjálfurum, fyrirliðum og forráðamanna liðanna í deildinni og Atli Þór tók undir það.  „Ég reyni að hugsa sem minnst við hvern verið að spila við, einbeiti mér frekar að sjálfum mér og liðinu mínu.  Mitt markmið var bara að koma inní leikinn alveg brjálaður og reyna rífa þetta upp, sem lukkaðist.  Við skulum vona að þetta skili okkar í deildina og vona að þessi leikur hafi sýnt að við getum þetta alveg.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert