„Við byrjum betur en í fyrra,“ sagði Guðmundur Magnússon eftir 2:2-jafntefli gegn FH á heimavelli í Bestu deild karla í fótbolta á Framvellinum í Úlfarsárdal í kvöld.
Guðmundur skoraði mark úr vítaspyrnu í fyrsta leik Fram á tímabilinu.
„Það var mikill barningur í fyrsta leiknum og liðin voru að finna taktinn. Við erum brattir og ætlum að gera betur en í fyrra, byrjum líka betur en í fyrra svo við höldum áfram.
Þeir leikmenn sem eru að koma til okkar passa vel inn í hópinn. Við höfum sýnt það í gegnum árin að við erum ekkert að sækja nöfn heldur stráka sem passa inn í liðið og spilamennskuna og þessir strákar gera það, “ sagði Guðmundur við mbl.is eftir leikinn.
Guðmundur skoraði mark úr víti á lokamínútum fyrri hálfleiks. Hann var jafn Nökkva Þeyr Þórissyni í keppninni um markakóngstitilinn í fyrra, þó hann fengi ekki titilinn, og byrjar tímabilið vel.
„Ég set mér tröppugangsmarkmið út tímabilið. Ef það skilar mér markakóngstitlinum þá bara tek ég því en það er ekki markmið,“ sagði Guðmundur sem frumsýndi nýja hárgreiðslu í dag sem er blá og hvít í stíl við búninginn.
Næsti leikur Fram er gegn nýliðum HK í Kórnum þann 16. apríl.