Íslenska U19-ára landsliðið í knattspyrnu kvenna lauk leik í milliriðli 5 í undankeppni EM 2023 með því að gera jafntefli við Úkraínu, 2:2, í Danmörku í dag.
Liðið var þegar búið að tryggja sér sæti á EM í sumar með tveimur fræknum sigrum í riðlinum; gegn heimakonum í Danmörku og Svíþjóð.
Í leiknum í dag kom Írena Héðinsdóttir González Íslandi yfir eftir rétt rúmlega hálftíma leik. Skömmu fyrir leikhlé jafnaði Úkraína hins vegar metin.
Úkraína náði forystunni eftir tæplega klukkutíma leik en aðeins nokkrum mínútum síðar jafnaði Snædís María Jörundsdóttir metin á ný fyrir Ísland.
Þar við sat og jafntefli niðurstaðan.
Ísland vann riðilinn með sjö stigum en þar á eftir kom Danmörk með sex stig eftir að hafa lagt Svíþjóð að velli í dag, 2:0.
Svíþjóð hafnaði í þriðja sæti með þrjú stig og Úkraína rak lestina með eitt stig.
Ísland verður ein af einungis átta þátttökuþjóðum á Evrópumótinu í Belgíu í sumar.