Sterkur íslenskur sigur í Zürich

Fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir hitar upp í dag.
Fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir hitar upp í dag. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta fagnaði góðum 2:1-sigri á Sviss í vináttuleik á Stadion Letzigrund-vellinum í Zürich í dag.

Íslenska liðið byrjaði betur og var sterkari aðilinn framan af í fyrri hálfleik. Glódís Perla Viggósdóttir kom boltanum í mark Sviss á 16. mínútu, en það var dæmt af vegna rangstöðu.

Aðeins tveimur mínútum síðar kom fyrirliðinn boltanum aftur í netið og skoraði gott og gilt mark. Ingibjörg Sigurðardóttir átti þá langan bolta fram sem Glódís tók glæsilega á móti og skoraði af öryggi.

Íslenska liðið var áfram með fín tök á leiknum eftir markið og var hættulegt í sínum sóknaraðgerðum. Það var því gegn gangi leiksins þegar Seraina Piubel jafnaði á 39. mínútu er hún slapp í gegn eftir skyndisókn eftir að íslenska liðið fékk horn.

Alexandra Jóhannsdóttir fékk mjög gott færi til að koma Íslandi yfir undir lok fyrri hálfleiks, en náði ekki krafti í skot úr teignum og Livia Peng í markinu varði örugglega. Urðu hálfleikstölur því 1:1, þrátt fyrir að íslenska liðið hafi verið sterkari aðilinn.

Í seinni hálfleikinn skiptu liðin um hlutverk. Svissneska liðið var meira með boltann og skapaði sér betri færi. Íslenska vörnin stóð hins vegar vel og Cecilía Rán var örugg í markinu þar fyrir aftan.

Var það svo gegn gangi leiksins að Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði sigurmarkið á 73. mínútu. Hún kláraði þá vel í teignum eftir góðan sprett hjá varamanninum Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur.

Svissneska liðið sótti hart að íslensku vörninni undir lokin og komust þær Noelle Maritz og Fabienne Humm báðar í úrvalsfæri en íslenska vörnin hélt og góður sigur varð raunin.

Sviss 1:2 Ísland opna loka
90. mín. Seraina Piubel (Sviss) á skot framhjá Af 20 metrum eða svo en boltinn vel framhjá markinu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert