Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði í fótbolta, var kát eftir 2:1-sigur Íslands á Sviss í vináttuleik ytra í kvöld. Glódís skoraði fyrsta mark leiksins og stóð vaktina vel í vörninni.
„Ég er gríðarlega ánægð með sigurinn. Við vorum að prófa nýtt kerfi og vorum að undirbúa okkur fyrir leikina í haust. Mér fannst það takast vel.
Við vorum með fulla stjórn á leiknum og þetta er eitthvað sem við munum byggja ofan á,“ sagði Glódís í viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum KSÍ.
Sigurinn var sá fyrsti á Sviss í tæp 40 ár og því kærkominn. „Ég er búin að spila við Sviss mjög oft og við höfum aldrei náð að vinna. Það er gaman að ná í þennan sigur í dag,“ sagði Glódís.
Hún skoraði markið af harðfylgi, eftir glæsilega sendingu frá Ingibjörgu Sigurðardóttur. Sagði Glódís markið svokallað Gunnýarmark, og átti þar við um mark sem Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir myndi eflaust skora.
„Við vorum með einhverja tengingu þarna. Ég vissi að hún væri að fara að koma með boltann. Svo tók ég Gunnýarmark á þetta og náði einhvern veginn að tækla hann inn,“ sagði Glódís.
Viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.