Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, ræddi þjálfaramál íslenska karlalandsliðsins í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.
KSÍ leitar nú að nýjum þjálfara eftir að Arnar Þór Viðarsson var rekinn nokkuð óvænt sem þjálfari liðsins.
„Við erum að vinna í því á fleygiferð,“ sagði Vanda í Morgunvaktinni þegar hún ræddi þjálfaramál karlalandsliðsins.
„Við erum sjálf á stúfunum í leit okkar að nýjum þjálfara og svo höfum við líka fengið fullt af ábendingum sem var mjög ánægjulegt því það er greinilega mikill áhugi á þessu,“ sagði Vanda.
Vanda var þá spurð að því hvort það væri skilyrði að næsti þjálfari hefði þjálfað landslið áður.
„Gjarnan landslið. Við setjum markið hátt og það er okkar hlutverk að finna eins góðan þjálfara og við mögulega getum. Það gæti alveg eins farið svo að næsti þjálfari verði erlendur.
Við vitum það öll að það eru ekki margir íslenskir þjálfarar sem uppfylla þessi skilyrði. Við vildum allavega byrja á því að setja markið hátt, með reyndan þjálfara sem er með mikla reynslu og hefur gert þetta allt saman áður,“ sagði Vanda meðal annars í Morgunvaktinni.