Áfall fyrir Framara

Jannik Pohl (til hægri) í baráttu við Jóhann Ægi Arnarsson …
Jannik Pohl (til hægri) í baráttu við Jóhann Ægi Arnarsson í leiknum á mánudag. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Danski sóknarmaðurinn Jannik Pohl verður frá í nokkrar vikur eftir að hafa orðið fyrir meiðslum á hné í leik Fram gegn FH í fyrstu umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu á annan í páskum.

„Þetta er einhver áverki á liðböndum í hné en líklega ekkert alvarlegt,“ sagði Jón Sveinsson, þjálfari Fram, í samtali við mbl.is.

Pohl meiddist þegar Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður FH, braut á honum innan vítateigs undir lok fyrri hálfleiks. Fór Daninn af velli í leikhléi af þeim sökum.

Aðspurður kvaðst Jón ekki vita nákvæmlega hve lengi Pohl yrði frá en að hann vonaðist til þess að það yrði ekki lengra en nokkrar vikur.

„Ég veit það ekki en þetta eru örugglega einhverjar vikur. Það er bara verið að meta nákvæmlega hversu alvarlegt þetta er og hve lengi hann verður frá.

Við vitum það ekki nákvæmlega eins og staðan er núna en ég á ekki von á því að þetta verði nema bara einhverjar 3-4 vikur, vonandi ekki meira en það.“

Jón Sveinsson, þjálfari Fram, á hliðarlínunni í leiknum.
Jón Sveinsson, þjálfari Fram, á hliðarlínunni í leiknum. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Jón sagði það vissulega lán í óláni að meiðslin væru ekki alvarlegri en raunin varð.

„Þetta var allavega ekki krossband eða neitt þannig. En liðbandsáverkar taka alltaf smá tíma að jafna sig,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert