Arnar Þór Viðarsson var rekinn sem landsliðsþjálfari karla í fótbolta eftir Teams-fund hjá Knattspyrnusambandinu fimmtudaginn 30. mars síðastliðinn.
Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar, frá miðvikudeginum 29. mars. Teams-fundinn sátu Vanda Sigurgeirsdóttir formaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Sigfús Ásgeir Kárason varaformaður, Halldór Breiðfjörð Jóhannsson, Helga Helgadóttir, Ívar Ingimarsson, Orri Hlöðversson, Pálmi Haraldsson, Tinna Hrund Hlynsdóttir og Unnar Stefán Sigurðsson, ásamt framkvæmdastjóranum Klöru Bjartmarz, sem ritaði fundargerð.
Hér fyrir neðan má sjá bút úr fundargerðinni, sem varðar brottrekstur Arnars Þórs, en hann var rekinn eftir 0:3-tapið fyrir Bosníu og 7:0-sigurinn á Liechtenstein í undankeppni EM.
Brot úr fundargerðinni:
Fundi var framhaldið kl. 13:00 fimmtudaginn 30. mars 2023 og fór fram á teams.
Mættir stjórnarmenn: Vanda Sigurgeirsdóttir formaður, Borghildur Sigurðardóttir varaformaður, Sigfús Ásgeir Kárason varaformaður, Halldór Breiðfjörð Jóhannsson, Helga Helgadóttir, Ívar Ingimarsson, Orri Hlöðversson, Pálmi Haraldsson, Tinna Hrund Hlynsdóttir og Unnar Stefán Sigurðsson.
Mættur framkvæmdastjóri: Klara Bjartmarz sem ritaði fundargerð.
Á dagskrá fundar var framhaldið umræðu um stöðu þjálfara A-landsliðs karla.
Stjórn KSÍ samþykkti að leysa Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfara A-landsliðs karla frá starfsskyldum sínum frá og með deginum í dag, 30. mars 2023. Stjórn KSÍ samþykkti að fela formanni KSÍ, Vöndu Sigurgeirdóttur, að leiða ferlið við tilkynningu til landsliðsþjálfara um ákvörðun stjórnar og hefja leit að nýjum landsliðsþjálfara.
Fleira var ekki tekið til umræðu og var fundi slitið kl. 13:40.
Klara Bjartmarz
fundarritari