Íslenska U16-ára landsliðið í knattspyrnu karla hafði betur gegn Armeníu eftir vítaspyrnukeppni á þróunarmóti Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA, á Möltu í morgun.
Staðan að loknum venjulegum leiktíma var jöfn, 1:1, þar sem Thomas Arnarsson skoraði mark íslensku piltanna.
Að leik loknum var farið beint í vítaspyrnukeppni þar sem Ísland hafði örugglega betur, 4:1.
Haraldur Brynjarsson, Freysteinn Guðnason, Þorri Bergmann og Jónatan Arnarsson skoruðu úr sínum spyrnum í vítaspyrnukeppninni.
Um var að ræða fyrsta leik U16-ára liðsins á þróunarmótinu á Möltu.