FH tekur á móti Stjörnunni í fyrsta heimaleik sínum í Bestu deild karla í knattspyrnu á laugardaginn. Kaplakrikavöllur er ekki tilbúinn og fer leikurinn því fram á grasvellinum við frjálsíþróttavöll FH.
Sá völlur er ekki löglegur í efstu deild og þurfa FH-ingar því að ráðast í að setja sæti í stúkuna við völlinn.
Í tilkynningu á samfélagsmiðlum félagsins eru stuðningsmenn liðsins beðnir um að aðstoða við uppsetningu sætanna í dag.
„Kaplakrikavöllur er því miður ekki tilbúinn og þurfum við því að spila leikinn á frjálsíþróttavelli okkar FH-inga. Til þess að það gangi upp þurfum við aðstoð frá ykkur kæru félagsmenn.
Aðstoðin felst í því að setja sæti í stúkuna ásamt því að fá sjálfboðaliða til að sinna gæslustörfum á leiknum sjálfum. Planið er að setja sætin í stúkuna í dag, fimmtudag, kl. 17.00,“ sagði í tilkynningunni.