Freyr Alexandersson, þjálfari danska úrvalsdeildarliðisins Lyngby í knattspyrnu karla, segir ráðninguna á Åge Hareide sem nýs þjálfara íslenska karlalandsliðsins vera frábæra.
Freyr, sem starfaði áður sem aðstoðarþjálfari landsliðsins þegar Svíinn Erik Hamrén var landsliðsþjálfari, lagði í dag út af eigin orðum í útvarpsþætti Fótbolta.net frá árinu 2020, þegar hann starfaði enn sem aðstoðarþjálfari.
Umræðuefnið í þættinum var Hareide, sem fékk ekki nýjan samning hjá danska knattspyrnusambandinu þrátt fyrir góðan árangur með danska karlalandsliðinu, og að Kasper Hjulmand væri nýtekinn við starfinu af honum.
„Åge er í fyrsta lagi allt öðruvísi manneskja en Kasper. Hann er miklu, ætla ég að leyfa mér að segja, íslenskari,“ sagði Freyr líkt og Fótbolti.net rifjaði upp í dag.
„Hann nær ótrúlega sterkum tengslum við leikmenn sína. Hann hefur þjálfað nokkra leikmenn hjá okkur [íslenska karlalandsliðinu]. Hann elskar þá alla og þeir elska hann allir.
Fótbolti hans er einfaldur, hann er skýr og markviss. Hann er sigursælasti þjálfari í sögu Danmerkur en fékk samt ekki framhald á samningi sínum,“ bætti hann við.
„Stend við það sem ég sagði. Frábær ráðning, mikilvægt að taka rétt skref núna,“ skrifaði Freyr á Twitteraðgangi sínum í dag.