„Algjör víkingur frá ströndinni“

Åge Hareide er hann stýrði danska landsliðinu.
Åge Hareide er hann stýrði danska landsliðinu. AFP

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Jan Åge Fjörtoft er ánægður með ráðningu KSÍ á landa sínum Åge Hareide sem nýs þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

Fjörtoft og Hareide eru af svipuðum slóðum í Möre og Romsdal-sýslu í vestur-Noregi og hafa þekkst um langt skeið. Fjörtoft, sem er 56 ára, er fæddur í Gursken og Hareide, sem er 69 ára, í Hareid, en stutt er á milli bæjanna.

„Óskum Íslandi til hamingju með nýja landsliðsþjálfarann. Ég hef þekkt Åge Hareide síðan ég var 12 ára. Hann er algjör víkingur frá ströndinni,“ skrifaði Fjörtoft á lýtalausri íslensku á Twitteraðgangi sínum í dag.

Þar lagði hann út af færslu Bendiks Hareide, sonar Åge, sem skrifaði sömuleiðis á lýtalausri íslensku:

„Pabbi tekur við stjórn íslenska landsliðsins. Spennandi tímar! Óska honum og landsliðinu góðs gengis á leiðinni til EM!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert