Gylfi gjaldgengur í landsliðið á ný

Gylfi Þór Sigurðsson á að baki 78 A-landsleiki.
Gylfi Þór Sigurðsson á að baki 78 A-landsleiki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson er gjaldgengur í íslenska karlalandsliðið á nýjan leik eftir að tilkynnt var í morgun að hann yrði ekki ákærður fyrir brot gegn ólögráða einstaklingi.

Þetta tilkynnti Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

Gylfi, sem er 33 ára gamall, hefur ekki spilað fótbolta síðan hann var handtekinn í júlí, sumarið 2021, en hann á að baki 78 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað 25 mörk.

„Það er skýrt í þeim reglum sem við settum að ef það eru engin mál í gangi, tengd ákveðnum leikmönnum, að þá má velja þá í landsliðið,“ sagði Vanda.

„Við vitum auðvitað ekki um hvað þetta tiltekna mál snýst en það er ekki í gangi lengur og því er landsliðsþjálfaranum frjálst að velja hann,“ bætti Vanda við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka