Norðmaðurinn Åge Hareide, nýr þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst spenntur fyrir áskoruninni og stefnir ótrauður með liðið á EM 2024.
„Ég hef fylgst með íslenska liðinu nokkuð lengi, sérstaklega í kringum árin sem liðið fór á EM 2016 og HM 2018, og ég er fullur tilhlökkunar að takast á við áskorunina að hjálpa liðinu að ná árangri að nýju.
Ísland á marga sterka leikmenn. Ég hef séð marga þeirra spila fyrir sín félagslið í Skandinavíu og hef líka þjálfað nokkra íslenska leikmenn í gegnum tíðina.
Almennt eru þeir áreiðanlegir og vinnusamir, en líka agaðir leikmenn með taktíska greind, og þú þarft þessa eiginleika til að ná árangri í landsliðsfótbolta,“ sagði Hareide í tilkynningu frá KSÍ.
Hann fór ekki í grafgötur með að liðið stefni á að komast á EM 2024 í Þýskalandi.
„Markmið okkar er að komast á EM 2024. Ég man vel eftir íslensku stuðningsmönnunum í Frakklandi 2016. Þeir voru með alveg einstaka stemmningu og ástríðu.
Það væri frábært að geta gefið þeim tækifæri til að endurtaka leikinn og við vonumst til þess að stúkurnar verði fullar af fólki á okkar heimavelli í Reykjavík,“ sagði Åge Hareide, nýr þjálfari A-landsliðs karla í knattspyrnu.