Skrifaði undir langtímasamning við bikarmeistarana

Viktor Örlygur Andrason í leik með Víkingi.
Viktor Örlygur Andrason í leik með Víkingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Viktor Örlygur Andrason hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild Víkings úr Reykjavík. Nýr samningur hans við uppeldisfélagið gildir út tímabilið 2025.

Viktor Örlygur er 23 ára gamall, afar fjölhæfur leikmaður sem leikur þó oftast á miðjunni.

Hann hefur leikið með Víkingi alla tíð og verið lykilmaður undanfarin ár þar sem liðið varð Íslandsmeistari árið 2021 og hefur staðið uppi sem bikarmeistari þrisvar sinnum í röð.

Viktor Örlygur lék sína fyrstu meistaraflokksleiki sumarið 2016, þá aðeins 16 ára gamall, er hann kom við sögu í þremur leikjum í úrvalsdeild.

Alls á Viktor Örlygur 84 leiki að baki fyrir Víking í efstu deild, þar sem hann hefur skorað fimm mörk. Auk þess hefur hann leikið 16 bikarleiki og skorað í þeim tvö mörk og átta Evrópuleiki.

Viktor Örlygur á að baki fjóra A-landsleiki fyrir Íslands hönd og tíu landsleiki fyrir U21-árs landsliðið, þar sem hann skoraði eitt mark.

„Knattspyrnudeild Víkings er afar ánægð með að hafa framlengt samning Viktors Örlygs og hlakkar til áframhaldandi velgengni á vellinum,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert