Þjálfari sem tikkaði í öll boxin hjá KSÍ

Age Hareide er nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins.
Age Hareide er nýr þjálfari íslenska karlalandsliðsins. AFP

„Ég er mjög ánægð að vera búin að ráða nýjan landsliðsþjálfara enda stutt í næsta leik,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

Åge Hareide var ráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í dag og skrifaði hann undir samning sem gildir út lokakeppni Evrópumótsins 2024.

„Í rauninni þurftum við ekki að sannfæra hann neitt sérstaklega. Hann varð strax mjög áhugasamur þegar að við höfðum samband og við erum gríðarlega þakklát fyrir það enda er hann risastórt nafn í fótboltaheiminum.

Það er frábært fyrir okkur, KSÍ og landsliðið og íslenskan fótbolta auðvitað að svona stórt nafn sé tilbúið að koma hingað til lands og þjálfa landsliðið okkar,“ sagði Vanda.

Åge Hareide hefur stýrt stærstu liðum Norðurlandanna á þjálfaraferlinum.
Åge Hareide hefur stýrt stærstu liðum Norðurlandanna á þjálfaraferlinum. AFP

Var strax mjög áhugasamur

Vanda flaug til Óslóar á skírdag til þess að ræða formlega við Hareide um að taka við landsliðinu.

„Þetta var í rauninni þannig að nafnið hans kom mjög fljótt inn í umræðuna. Þá fórum við að ræða við fólk á Norðurlöndunum sem hann hefur unnið með í gegnum tíðina. Við fengum mjög jákvæðar umsagnir frá öllum sem hafa unnið með honum og þá fórum við að hlera hann með starfið.

Hann hafði áhuga á því og því ákváðum við að fljúga til Noregs til þess að setjast niður með honum og hitta hann augliti til auglitis. Við áttum mjög góðan fund með honum þar sem hann tikkaði í öll okkar box ef svo má segja.“

Åge Hareide mun stýra íslenska liðinu út lokakeppni EM 2024 …
Åge Hareide mun stýra íslenska liðinu út lokakeppni EM 2024 hið minnsta. AFP

Gerðu mjög fínan samning

Eins og áður hefur komið fram er Hareide mjög stórt nafn í knattspyrnuheiminum og því liggur beinast við að spyrja hvort það hafi verið dýrt að ráða hann sem landsliðsþjálfara.

„Ég get ekki farið út í einhverjar launatölur en við gerðum mjög fínan samning að mínu mati. Ég er þakklát fyrir það að hann sé tilbúinn að koma hingað, enda er hann algjör toppþjálfari sem hefur náð frábærum árangri hvert sem hann kemur,“ bætti Vanda við í samtali við mbl.is.

Åge Hareide hefur stýrt landsliðum Danmerkur og Noregs á þjálfaraferlinum.
Åge Hareide hefur stýrt landsliðum Danmerkur og Noregs á þjálfaraferlinum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert