Yfirlýsing vegna máls Gylfa tilbúin

Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Everton. AFP

Fljótlega er von á yfirlýsingu frá lögreglunni í Manchester vegna sakamáls knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Gylfi Þór var handtekinn í júlí árið 2021, grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi.

Eftir að hafa verið yfirheyrður af lögreglunni í Manchester hefur hann síðan þá verið laus gegn tryggingu en um leið í farbanni og hefur því ekki mátt yfirgefa Bretlandseyjar.

Rannsókn á málinu lauk í janúar síðastliðnum og samkvæmt Fótbolta.net er yfirlýsing lögreglunnar vegna málsins reiðubúin.

Því er loks frétta að vænta af málinu á næstunni þar sem mun koma í ljós hvort saksóknaraembættið í Manchester ákveði að ákæra Gylfa Þór eða láta málið niður falla.

Gylfi Þór var leikmaður Everton þegar hann var handtekinn og var þegar í stað settur til hliðar. Lék Gylfi Þór ekkert með liðinu á tímabilinu 2021/2022 og rann samningur hans út að því loknu.

Hefur hann því ekki leikið knattspyrnu í að verða tvö ár, en Gylfi Þór er 33 ára gamall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert