FH tók á móti Stjörnunni í 2. umferð Bestu deildar karla í dag. Leikið var á frjálsíþróttavellinum í Kaplaprika þar sem aðalvöllur heimamanna var ekki tilbúinn fyrir kappleik. Leiknum lauk með sigri heimamanna, 1:0.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, gerði tvær breytingar á liði sínu frá síðasta leik en þeir Eggert Gunnþór Jónsson og Úlfur Ágúst Björnsson komu inn í liðið á kostnað Finns Orra Margeirssonar og Haraldar Einars Ásgrímssonar. Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnumanna, gerði aðeins eina breytingu á sínu liði frá tapinu á móti Víkingi Reykjavík. Joey Gibbs kom inn í liðið í stað Heiðars Ægissonar sem tyllti sér á bekkinn.
Leikurinn byrjaði mjög rólega og lítið sem ekkert gerðist fyrstu 15 mínútur hans. Bæði lið voru að reyna að venjast óvenjulegum vallaraðstæðum og knattspyrnuleg gæði voru ekki mikil.
Á 19. mínútu leiksins dæmdi Erlendur Eiríksson, dómari leiksins, vítaspyrnu þegar Eggert Gunnþór felldi Ísak Andra Sigurgeirsson, leikmann Stjörnunnar, innan teigs. Á punktinn fór Jóhann Árni Gunnarsson en hann lét Sindra Kristinn Ólafsson, markvörð heimamanna, verja frá sér. Sindri hafði reyndar stigið frá línunni og hefði með réttu átt að láta endurtaka spyrnuna en dómarar leiksins misstu af því og staðan því enþá 0:0.
Stjörnumenn voru grimmari aðilinn eftir þetta án þess þó að ná að skapa sér einhver teljandi færi. Fyrri hálfleikur fjaraði síðan út og staðan í hálfleik markalaus.
Stjörnumenn mættu grimmir út í síðari hálfleikinn og voru með frumkvæðið. Þeir fengu hornspyrnu á 57. mínútu sem Jóhann Árni tók. Jóhann smellti boltanum fyrir markið og endaði spyrnan í þverslánni áður en FH-ingar hreinsuðu.
Það var síðan á 63. mínútu leiksins sem fyrsta markið kom. Vuk Oskar Dimitrijevic skoraði þá eftir frábæran undirbúning Kjartans Henry Finnbogasonar. Glæsilegt mark og heimamenn komnir 1:0 yfir.
Stjörnumenn spyrntu frá sér eftir að hafa lent undir og átti Adolf Daði Birgisson skot í slá á 74. mínútu. Þeir fengu aukaspyrnu á stórhættulegum stað á 87. mínútu. Fyrrum leikmaður FH, Baldur Logi Guðlaugsson tók spyrnuna en skaut beint á Sindra Kristinn.
Gyrðir Hrafn Guðbrandsson fékk síðan tvö dauðafæri fyrir heimamenn undir lok leiks. Fyrra skot hans fór vel framhjá og Árni Snær Ólafsson, markvörður Stjörnumanna, varði síðan vel frá Gyrði eftir að hann hafði sloppið í gegn.
FH-ingar spiluðu fína vörn það sem eftir lifði leiks og sigldu heim 1:0 sigri á Stjörnumönnum.