Keflavík tók á móti KR í 2.umferð Bestu deildar karla. Leikið var á gervigrasinu við Reykjaneshöllina því gras- og aðalvöllur Keflavíkur er ekki nothæfur sem stendur.
Gestirnir voru sterkari aðilinn i fyrri hálfleik og áttu meðal annars skot í slá. Keflvíkingar áttu líka fínar sóknir. Eftir því sem leið á seinni hálfleikinn fengu KR fleiri færi en Mathias Brinch Rosenörn, hinn danski markvörður Keflvíkinga varði vel.
KR náði að brjóta ísinn á 58. mínútu með fallegu marki frá Kristni Jónssyni sem átti skot utan af vængnum sem endaði í markinu. 1:0 fyrir KR.
Bæði lið sóttu í kjölfarið en það voru svo varamenn KR sem voru arkitektar að seinna marki liðsins sem kom á 80. mínútu. Kristján Flóki Finnbogason átti flotta sendingu inn í teig Keflvíkinga sem Benoný Breki Andrésson kláraði vel. Staðan orðin 2:0 fyrir gestina úr Vesturbænum.
Bæði lið fengu svo hörkufæri undir lok leiks. Atli Sigurjónsson og Olav Öby, leikmenn KR, fengu báðir dauðafæri en Rosenörn varði vel í bæði skiptin.
Viktor Andri Hafþórsson leikmaður Keflavíkur komst svo hörkufæri í kjölfarið en Simen Kjellevold, markvörður KR, varði frábærlega.
Virkilega sterkur 2:0-útisigur KR niðurstaðan og er liðið komið með 4 stig á meðan Keflavík er með 3 stig að loknum tveimur leikjum.
Það má segja að það hafi verið ákveðnar sögulínur í þessum leik því að Benoný Breki, sem er aðeins 17 ára gamall, var að skora sitt fyrsta mark í fyrsta leik í efstu deild. Hann fékk leikheimild fyrir helgina, kom frá Bologna á Ítalíu en er uppalinn í Gróttu og síðar í Breiðabliki.