Hallgrímur Mar Steingrímsson lék á als oddi í KA-búningnum í dag þegar KA vann ÍBV 3:0 í 2. umferð Bestu-deildarinnar í knattspyrnu. Grímsi lagði upp tvö fyrstu mörk KA á einkar laglegan hátt. Yfirvegun og gott samspil einkenndi öll mörk KA í leiknum.
Hallgrímur Mar var gripinn í stutt viðtal eftir leik og var hann ánægður með spilamennsku KA.
„Heyrðu þú ert að tefja fyrir mér. Ég er að drífa mig heim að horfa á leikinn“ sagði Hallgrímur Mar í byrjun. Hann var þar að tala um leik Tindastóls og Keflavíkur í körfubolta, sem var við það að hefjast. Kappinn hefur verið tíður gestur á leikjum Stólanna í úrslitunum síðustu ár en varð að láta sér nægja að horfa í sjónvarpinu í dag.
Þetta var fínn leikur hjá ykkur í dag og þið með góð tökum á nánast allan tímann.
„Mér fannst við vera með yfirhöndina, líka áður en við skoruðum fyrsta markið. Eftir það þá fannst mér þetta aldrei í hættu og ef eitthvað þá hefðum við getað skorað fleiri mörk. Mér fannst við bara miklu betri.“
Þú ert með tvær laglegar stoðsendingar.
„Það er alltaf gaman að koma að mörkum, hvort sem maður leggur upp eða skorar sjálfur. Ég er alltaf á höttunum eftir mörkum og vonast til að ná hundraðasta markinu fyrir KA í sumar. Það hefði því verið gaman að setja eitt sjálfur.“
Það var dálítið einkennandi hvað þið gáfuð ykkur góðan tíma í sóknirnar og létuð boltann ganga þar til þið funduð manninn í besta færinu.
„Mér fannst bara allt liðið vera gott og rólegt á boltanum, frá aftasta manni. Vörnin var að finna góðar sendingar inn á miðjuna og það var góð hreyfing á liðinu. Þetta var bara flottur leikur.“
Næsti leikur hjá ykkur er í Mjólkurbikarnum á miðvikudaginn. Þá kemur 4. deildarlið Uppsveita í heimsókn. Það verður eflaust skemmtilegur leikur.
„Mér finnst skemmtilegt að spila á móti nýjum liðum og það verður frábært að fá þetta lið norður. Það er alltaf sjarmi yfir bikarkeppninni og þá geta svona lið fengið skemmtilega leiki. Þeir munu gefa okkur hörkuleik. Ég er alveg viss um það.“
Og svo enn einn heimaleikur á sunnudaginn eftir viku. Þá verða komnir fimm heimaleikir í beit.
„Það er náttúrulega hvergi betra að spila en hérna, ekki síst þegar veðrið er svona gott og stúkan full af fólki. Vissulega mættu alveg vera fleiri áhorfendur og í svona veðri gerir maður kröfu um að fólk fjölmenni á völlinn.“