Það er alltaf mikilvægt að vinna

Björn Daníel Sverrisson átti flottan leik fyrir FH í dag.
Björn Daníel Sverrisson átti flottan leik fyrir FH í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Björn Daníel Sverrisson, leikmaður FH, átti flottan leik á miðjunni hjá Hafnfirðingum í dag er þeir sigruðu Stjörnuna, 1:0, í 2. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu. Leikið var á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika þar sem aðalvöllur heimamanna var ekki tilbúinn fyrir kappleik.

Björn Daníel sagðist í samtali við mbl.is vera ánægður með sigurinn og það skipti hann engu máli hvort hann hefði verið sanngjarn eða ekki.

„Þetta var hörkuleikur, grasið er eins og það er og það er vindur hérna. Fótboltinn var ekkert upp á marga fiska en mér fannst þeir töluvert baráttuglaðari en við í fyrri hálfleik en mér fannst við koma sterkir til baka í seinni. Sanngjarnt eða ekki, mér er sama, við unnum þennan leik og það er það sem skiptir máli.“

Aðspurður hvernig stemningin í FH liðinu væri eftir sterka byrjun á mótinu svaraði Björn:

„Það eru bara tveir leikir búnir. Eftir síðasta sumar vissum við að það væri mikil vinna framundan og það þýðir ekkert að slaka á núna og vera húrrandi glaðir eftir tvo leiki. Við þurfum að halda áfram og byggja ofan á þessa fínu byrjun okkar. Það er mjög jákvætt að við höldum hreinu og vinnum leikinn hér í dag. Það er alltaf mikilvægt að vinna, það gefur jákvæða stemningu inn í klefann og allir mæta glaðir á æfingu á morgun.“

Fréttaritara fannst Björn Daníel vera mjög öflugur á miðjunni í dag og spurði hvernig honum fannst sín frammistaða hér í dag.

„Ég var ekkert sérstaklega ánægður með mig í fyrri hálfleik, ég þurfti að berja mig aðeins í gang í hálfleik og ég var betri í seinni. Ég er ánægður með hvernig þetta er búið að vera hjá okkur. Heimi finnst gaman að láta okkur æfa og ég hef ekki misst mikið úr í vetur, ég hef grætt á því að vera heill og hafa getað æft vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert