Þægilegt hjá KA gegn ÍBV 

Leikmenn KA fagna marki Ásgeirs Sigurgeirssonar í dag.
Leikmenn KA fagna marki Ásgeirs Sigurgeirssonar í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Önnur umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu hófst í dag með þremur leikjum. Á Akureyri mættust KA og ÍBV. KA var með eitt stig fyrir leik en ÍBV án stiga. 

Leikurinn var í jafnvægi lengi vel en KA skoraði eina mark fyrri hálfleiks. Í upphafi seini hálfleiks kom annað mark KA og eftir það var aldrei spurning hvort liðið hefði sigur. KA bætti við marki fyrir leikslok og niðurstaðan því 3:0 sigur KA.

Veðrið lék við leikmenn, sem sprettu úr spori í glampandi sól og fyrirtaks fótboltaveðri.

Segja má að fyrri helmingur fyrri hálfleiks hafi verið með rólegra móti þótt KA-menn væru töluvert aðgangsharðari. Smám saman varð pressa KA þyngri og það skilaði marki á 26. mínútu. Ásgeir Sigurgeirsson plantaði boltanum í mark ÍBV eftir frábæran undirbúning bræðranna Hrannars Björns og Hallgríms Mar.

KA var nærri því að skora aftur skömmu síðar þegar Sveinn Margeir Hauksson átti hörkuskot í þverslána á marki ÍBV. Hann skallaði svo boltann fram hjá marki ÍBV úr algjöru dauðafæri. Tóku Eyjamenn þá loks við sér og þeir voru töluvert mikið í sókn á lokamínútum hálfleiksins. Fengu þeir eitt kjörið færi en náðu ekki að setja tá í boltann. KA skoraði svo rangstöðumark á lokasekúndunum. Staðan var því 1:0 í hálfleik en seinni hluti fyrri hálfleiks gaf fyrirheit um fjör í þeim seinni.

KA bætti við marki snemma í seinni hálfleik þegar Bjarni Aðalsteinsson batt endahnútinn á frábært spil. Hann renndi boltanum fram hjá Jóni Kristni eftir að Hallgrímur Mar hafði sent hann í gegn.

Eyjamenn reyndu hvað þeir gátu til að koma sér inn í leikinn en það gekk afar lítið og það eina sem hafðist upp úr krafsinu hjá þeim var eitthvað af gulum spjöldum. Þriðja mark KA kom svo skömmu fyrir leikslok og skoraði þá hægri bakvörðurinn Þorri Mar Þórisson, annan leikinn í röð.

3:0 urðu lokatölur og byrjunin hjá ÍBV ekki sú besta. KA situr nú á toppi Bestu deildarinnar með fjögur stig og betri markatölu en KR og FH.

KA-menn voru afar yfirvegaðir í leiknum og spiluðu sig út úr öllum aðstæðum oft þegar flestir hefðu bara drifið í að lúðra boltanum eitthvað fram á við. Stuðningsfólk liðsins saup eflaust hveljur í einhverjum tilvikum þegar KA-menn voru að spila sig út úr ákafri pressu Eyjamanna við vítateig KA.

Margir voru að spila vel hjá KA en Ívar Örn Árnason og Hallgrímur Mar Steingrímsson stóðu öðrum fremri. Ívar Örn átti alla bolta sem komu inn að marki KA og Hallgrímur Mar stjórnaði dansi KA-manna í kringum vítateig ÍBV. Sveinn Margeir Hauksson tók þar fullan þátt ásamt Bjarna Aðalsteinssyni og Daníel Hafsteinssyni.

Eyjamenn voru duglegir lengi vel og pressuðu KA-menn framarlega á vellinum. Þeir tóku fína rispu þegar þeir reyndu að jafna leikinn undir lok fyrri hálfleiks og var Elvis Bwonomo þeirra hættulegasti maður en lúmskar sendingar hans af hægri vængnum sköpuðu hættu í vítateig KA.

KA 3:0 ÍBV opna loka
90. mín. Harley Willard (KA) á skot í þverslá Þessi var tæpur. Boltinn skaust niður og lenti í bakinu á Jóni Kristni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert