Benóný Breki Andrésson, leikmaður KR, var himinlifandi eftir að hafa skorað í sínum fyrsta leik í efstu deild er hann kom inn á sem varamaður og innsiglaði 2:0-sigur liðsins á Keflavík í annarri umferð Bestu deildarinnar í dag.
„Tilfinningin er geggjuð, þetta er geggjaður klúbbur eftir að hafa komið frá Ítalíu og mér líst ógeðslega vel á þetta,“ sagði Benóný Breki í samtali við mbl.is eftir leik.
Hann fékk leikheimild með KR fyrir helgina eftir að hafa verið keyptur frá Bologna á Ítalíu.
Benóný Breki, sem er aðeins 17 ára gamall, er alinn upp hjá Breiðabliki og Gróttu. Hann er ekkert að fara fram úr sér þrátt fyrir frábæra byrjun á meistaraflokksferlinum
„Auðvitað er tilfinningin góð, fyrsta mark og mér fannst ég bara spila ágætlega þannig að áfram gakk, það er bara næsti leikur,“ sagði Benóný Breki einnig í samtali við mbl.is.