Keflavík er eina liðið sem á möguleika á að vera með sex stig á toppi Bestu deildar karla eftir leiki dagsins en þrír leikir fara fram í annarri umferð deildarinnar í dag.
Keflvíkingar taka á móti KR í dag klukkan 14 en leikið verður á gervigrasinu við Reykjaneshöll þar sem aðalvöllur Keflvíkingar er ekki tilbúinn til notkunar. Keflavík vann Fylki 2:1 á útivelli í fyrstu umferðinni en KR gerði jafntefli við KA á Akureyri, 1:1.
FH mætir Stjörnunni á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika klukkan 16 en aðalvöllurinn á svæðinu er ekki tilbúinn. FH gerði jafntefli, 2:2, við Fram í fyrstu umferðinni en Stjarnan tapaði 0:2 fyrir Víkingi á heimavelli.
KA og ÍBV mætast á velli KA-manna á Akureyri klukkan 16 en leikurinn var færður þangað þar sem Hásteinsvöllur í Vestmannaeyjum er ekki tilbúinn. KA gerði jafntefli við KR, 1:1, í fyrstu umferðinni en Eyjamenn töpuðu fyrir Val á Hlíðarenda, 2:1.
Keflavík er því eina liðið af þeim sex sem leika í dag sem vann í fyrstu umferðinni en hinir þrír leikir annarrar umferðar fara fram á morgun, sunnudag. Þá mætast Víkingur - Fylkir, HK - Fram og Valur - Breiðablik.