Við erum sáttir með þrjú stig

Vuk Oskar Dimitrijevic skoraði sigurmark heimamanna í dag
Vuk Oskar Dimitrijevic skoraði sigurmark heimamanna í dag mbl.is/Óttar Geirsson

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, sagðist í samtali við mbl.is vera sáttur með 1:0 sigur sinna manna á Stjörnunni í 2. umferð Bestu deildar karla í dag. Leikið var á frjálsíþróttavelli FH þar sem aðalvöllurinn í Kaplakrika var ekki tilbúinn í dag.

„Við vissum alltaf að þetta yrði barátta gegn vel mönnuðu Stjörnuliði. Mér fannst þeir ofan á í fyrri hálfleik en þegar leið á leikinn fannst mér við komast betur inn í hann og spiluðum betri fótbolta. Við skoruðum eitt og fengum góða möguleika til að bæta við, þannig að við erum sáttir með þrjú stig og að hafa haldið hreinu.“

Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður FH, gerði slæm mistök í síðasta leik liðsins þegar hann fékk dæmda á sig vítaspyrnu. Hann varði vítaspyrnu í dag og var Heimir ánægður með sinn mann.

„Sindri hefur verið geggjaður síðan hann kom í FH, hann er manna fyrstur að viðurkenna að hann hafi gert mistök í leiknum á móti Fram. Við í þessum klúbbi erum ekki að eyða of miklum tíma í að elta mistök, við viljum frekar sjá hvað menn gera í framhaldinu. Sindri var frábær í dag, varði víti og var öruggur í öllum sínum aðgerðum og greip vel inn í leikinn.“

Vuk Oskar Dimitrijevic skoraði sigurmark heimamanna í dag, hans annað mark í tveimur leikjum.

„Vuk hefur verið flottur, hann þarf bara að halda áfram og finna þennan stöðugleika. Eftir því sem hann verður betri þá verður tekið fastar á honum, hann þarf bara að vera skynsamur og þá verður hann flottur fyrir okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert