ÍBV byrjar Bestu-deildina í knattspyrnu karla á svipuðum nótum og í fyrra. Eyjamenn voru í heimsókn hjá KA á Akureyri í dag og töpuðu 0:3 í leik þar sem KA var töluvert sterkara lið.
Þar með er liðið stigalaust eftir tvo fyrstu leiki sína. ÍBV þurfti að bíða fram í 13. leik eftir sigri í deildinni í fyrra en sá sigur kom í næsta leik etir tap gegn KA á Greifavellinum.
Leikurinn átti að fara fram í Vestmannaeyjum en liðin skiptu á heimaleikjum þar sem völlurinn í Eyjum er ekki alveg klár fyrir sumarið.
Hermann Hreiðarsson, þjálfari ÍBV, var greinilega súr með úrslitin en það var stutt í góða skapið eins og lesa má úr viðtalinu við hann.
„Þetta var þungt í dag og bara svekkjandi eftir flottan leik hjá okkur á móti Val. Við byrjuðum ágætlega og KA var ekki að skapa nein færi en þeir refsa okkur og skora úr fyrsta færinu sínu og eftir það þá varð leikurinn snúnari. Mörk breyta leikjum og allt þetta.
Við vorum eiginlega án framherja og svo komu þrír örlítið skakkir inn á, sem sýnir kannski stöðuna hjá okkur akkúrat núna. Það eru meiðsli að herja á okkur og mikið af meiddum leikmönnum í sömu stöðunum. Þetta er bara óheppni að staðan sé svona núna í upphafi móts eftir gott undirbúningstímabil. Við erum betri en þetta og þess vegna hundfúlir.“
Þú veist hvað gerðist eftir að þið töpuðuð fyrir KA í fyrra hér á Greifavellinum.
„Ég veit það nefnilega. Eftir þann leik þá fór allt í gang hjá okkur.“
Þannig að þið skiptuð á heimaleikjum við KA bara út af því.
„Já bara út af því“ sagði Hermann og skellihló.